Um 365

365 Miðlar hf.

365 miðlar er fjölmiðla- og fjarskiptafyrirtæki sem er leiðandi á sínu sviði. Fyrirtækið rekur sjö sjónvarpsstöðvar og fimm útvarpsstöðvar auk þess sem það býður upp á farsíma- og netþjónustu, gefur út dagblað, vefmiðil og tímarit; Fréttablaðið, Vísi og Glamour. Þá eiga 365 miðlar einnig miðasölufyrirtækið Miði.is sem og tónlistarvefinn Tónlist.is.


Sjónvarpsstöðvarnar sem um ræðir eru Stöð 2, Stöð 3, Bíóstöðin, Krakkastöðin, Sport, Sport 2 og Golfstöðin en jafnframt rekur fyrirtækið hliðarrásir með sportrásunum þegar framboð á íþróttaefni er mikið. Þá bjóða 365 miðlar upp á mikið úrval erlendra sjónvarpsstöðva sem ná til um 90 prósent landsmanna.


Útvarpsstöðvarnar eru Bylgjan, Léttbylgjan, Gullbylgjan, X-ið og FM957 auk vefútvarpsins FM Klassík.


Þá er fyrirtækið handhafi tveggja 4G fjarskiptaleyfa og býður bæði upp á internet- og farsímaþjónustu til heimila.


365 miðlar halda úti stærstu fréttastofu landsins, en undir hana heyra Fréttablaðið, Bylgjan og Vísir auk kvöldfrétta Stöðvar 2. Bylgjan flytur landsmönnum fréttir á klukkustundar fresti alla virka daga frá klukkan 7 til 18, og fréttatími Stöðvar 2 er alla daga vikunnar klukkan 18.30.

Saga 365 Miðla

Stöð 2 er fyrsta og elsta einkarekna áskriftastöðin hér á landi. Hún var stofnuð 9. október 1986 af Jóni Óttari Ragnarssyni og Hans Kristjáni Árnasyni.


Sjónvarp líkt og landsmenn þekktu það gjörbreyttist á svipstundu þegar Stöð 2 var kynnt til leiks því boðið var upp á fjölbreytta dagskrá alla sjö daga vikunnar en fram að því hafði ekkert sjónvarp verið á fimmtudögum hér á landi. Dagskrá Stöðvar 2 varð sífellt lengri og viðameiri en lögð var megináhersla á fréttatímann og innlenda dagskrárgerð.


Bylgjan var stofnuð árið 1986.

Stöð 2 sameinaðist Bylgjunni og Sýn 4. maí 1990 undir merkjum Íslenska útvarpsfélagsins. Sýn-rásin var að mestu leyti notuð til að sjónvarpa frá þingfundum en varð að lokum að íþróttarás, og ber hún í dag heitið Stöð 2 Sport.

Stöð 2 sameinaðist Bylgjunni og Sýn 4. maí 1990 undir merkjum Íslenska útvarpsfélagsins. Sýn-rásin var að mestu leyti notuð til að sjónvarpa frá þingfundum en varð að lokum að íþróttarás, og ber hún í dag heitið Stöð 2 Sport.

Vefmiðillinn Vísir.is var stofnaður 1.apríl 1998. Vísir er einn stærsti vefmiðill landsins en þar er að finna efni frá öllum miðlum 365, hvort sem um er að ræða ljósvaka- eða prentmiðla.

Fyrsta tölublað Fréttablaðsins kom út 23. apríl 2001. Nýtt rekstrarform fyrir dagblað var kynnt þann sama dag því þetta var í fyrsta sinn á Íslandi sem fríblaði var dreift í hvert hús. Blaðinu er í dag dreift á Stór-Reykjavíkursvæðinu, Suðurnesjum og á Akureyri, en á öðrum stærri stöðum er blaðinu dreift í þar til gerða Fréttablaðskassa. Póstdreifing ehf annast dreifingu Fréttablaðsins.

Allir fyrrnefndir miðlar sameinuðust árið 2004 og mynduðu þannig 365. Þetta sama ár náði Bylgjan stöðu sem vinsælasta útvarpsstöð landsins og Vísir varð annar tveggja vinsælustu vefmiðla landsins ásamt því sem hann byrjaði að bjóða upp á efni með hljóði og mynd.

Stöð 2 hóf hinn 19. desember 2012 formlega útsendingar í háskerpu, og varð þannig fyrst íslenskra sjónvarpsstöðva til að bjóða upp á reglubundnar útsendingar í HD.

Miði.is og Tónlist.is urðu partur af fyrirtækinu árið 2013. Miði.is annast miðasölu á mannfagnaði og viðburði og Tónlist.is er stafræn tónlistarþjónusta en þar má nálgast stærsta safn íslenskrar tónlistar sem völ er á hér á Íslandi ásamt erlendri tónlist.


Þá sameinuðust fréttastofur Vísis, Stöðvar 2, Bylgjunnar og Fréttablaðsins í maí 2013 og úr varð enn öflugri fréttstofa. Með sameiningunni var dregið úr tvíverknaði og óhagræði og kraftar rúmlega 100 starfsmanna nýttir betur.

365 miðlar urðu að fjarskiptafyrirtæki 12. desember 2015 þegar þeir sameinuðust Tal. Þar með hófst sala á farsíma- og netþjónustu undir merkjum 365 miðla.


365 miðlar eru einnig útgefandi íslenskrar útgáfu tísku- og lífsstílstímarritsins Glamour. Samningar náðust við Condé Nast í maí 2014 og var fyrsta blaðið hér á landi gefið út tæplega ári síðar, eða 27. mars 2015. Fyrirtækið hefur frá upphafi verið brautryðjandi á íslenskum markaði, hvort sem það er í útvarpið eða sjónvarpi, og mun áfram kappkosta við að bjóða upp á ýmsar nýjungar þegar kemur að afþreyingu. Hjá 365 vinnur fólk af heilindum og gleði með það fyrir augum að skemmta landsmönnum áfram.